Harpa Rún Kristjánsdóttir

Mæða

saman
biðum við þess
að verða mæður
lóan og ég

henni
jafn illa við
þau sem vildu skoða eggin
og mér við augu
sem hvíldu á útþöndum maga
of stirð
til að skríða burt
vængbrotin

mitt
kom með hvelli
klauf mig í tvennt
samsaumuð skreið ég með það heim
fól í örmum
ófær um að veita nokkra vernd

fáum
dögum seinna
brestur í skurn
gægist
lítill goggur


fylgjast fjórir foreldrar
með og bíða
ránfuglar sveima
í leyni liggur tófa

lóurnar
skríða
meiddar um móinn
ég þrýsti barni að brjósti

meðan
við bíðum

hjálparlaus
gegn ótta þess sem eflaust
hefur séð ungann sinn þræddan
á kló

Viltu deila þessu innleggi?

Deildu á Facebook
Deildu á Twitter

HVað finnst þér um þetta innlegg?